Það er magnað hvað safnast saman hjá manni af litlum hnyklum og afgöngum. Ég hef haft það fyrir reglu að safna svipuðum grófleika af garni saman í box, léttlopaafgöngum saman o.s.frv. Alltaf öðru hvoru tek ég boxin og geri eitthvað við innihaldið. Ótrúlegt en satt, að þó fallegir og nytsamlegir hlutir verði til, þá minnkar magnið í boxunum ótrúlega lítið, engu líkara en það margfaldist.
Nú fyrir stuttu tók ég mig til og prjónaði nokkur vettlingapör handa litlu fingrunum sem bæst hafa í fjölskyldur okkar Axels á undanförnum vikum. Oft tek ég minnstu hnyklana og skipti þeim í tvennt, þá nær maður að klára þá alveg.
Það er engin uppskrift af þessum vettlingum en ég reyni að vanda litasamsetningar. Ég hef sankað að mér góðu úrvali af satínborðum, gríp oft ef ég sé á tilboði t.d. í Föndru eða A4, oft fær maður borða utan um gjafir og svo hef ég fundið að besta verðið er sennilega hjá Söstrene Grene en þar hef ég fengið 11 metra af 7 millimetra borða á 199 krónur.
Það er líka alltaf sígilt að prjóna Barbie-föt. Ég hef fundið góða síðu með ógrynni uppskrifta http://www.stickatillbarbie.se/ Það er óhætt að segja að þarna getur hver og einn fundið eitthvað við sitt hæfi.
... og svo er bara að fitja upp.
Ég hef til margra ára unnið mikið af hvers kyns handavinnu. Mig langar að halda því saman sem ég hef gert og er að gera, setja inn fróðleikskorn og punkta sem hafa nýst mér vel, uppskriftir og e.t.v. það sem ég hef til sölu. Þetta litla handavinnublogg mitt snýst því um hvers kyns handavinnu þ.e. prjón, hekl, vélsaum, útsaum, bútasaum, fróðleik og pælingar um eitt og annað sem viðkemur handavinnu.
þriðjudagur, 8. júlí 2014
miðvikudagur, 2. júlí 2014
Blessað barnalán
Það er óhætt að segja að mikil barnasprengja hafi orðið í kringum litlu fjölskylduna undanfarið og nýfæddum börnum hreinlega rignt niður í kringum okkur. Þetta á bæði við innan fjölskyldu okkar hjónanna beggja en einnig hjá vinum. Ég hef oft átt eitthvað í handraðanum til að grípa til og gefa en nú hef ég varla haft undan. Frá því í nóvember og fram til 17. júní, hafa hvorki meira né minna en níu börn fæðst í kringum okkur og auðvitað langar manni að færa hverju barni eitthvað hlýtt og notalegt heimaprjónað eða heklað. Um síðustu helgi kláraði ég litla sokkaskó handa litlu þjóðhátíðardömunni, frænkunni sem fæddist á 17. júní. Uppskriftina fann ég á gömlu ljósriti úr "Nýju kvennablaði" sem, ef ég hef kynnt mér rétt, var gefið út á árunum 1940-1964. Mér finnst algjör fjársjóður að komast í svona gamlar uppskriftir og vinna með. Sokkaskóna prjónaði ég úr Lanett-garni frá norska framleiðandanum Sandnes á prjóna nr. 2 1/2. Um leið og ég prjónaði sokkaskóna, breytti ég uppskriftinni örlítið að mínum hætt og er mjög ánægð með árangurinn. Næst er svo að prjóna annað par og skrifa þá niður breytingarnar um leið.
Hér má sjá árangurinn. Það var með ráðum gert að hafa bandið örlítið strekkt til að sokkaskórnir haldist betur á fætinum og svo er bara að sjá hvernig litla eigandanum og foreldrunum líkar.
Hér má sjá árangurinn. Það var með ráðum gert að hafa bandið örlítið strekkt til að sokkaskórnir haldist betur á fætinum og svo er bara að sjá hvernig litla eigandanum og foreldrunum líkar.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)