miðvikudagur, 2. júlí 2014

Blessað barnalán

Það er óhætt að segja að mikil barnasprengja hafi orðið í kringum litlu fjölskylduna undanfarið og nýfæddum börnum hreinlega rignt niður í kringum okkur. Þetta á bæði við innan fjölskyldu okkar hjónanna beggja en einnig hjá vinum. Ég hef oft átt eitthvað í handraðanum til að grípa til og gefa en nú hef ég varla haft undan. Frá því í nóvember og fram til 17. júní, hafa hvorki meira né minna en níu börn fæðst í kringum okkur og auðvitað langar manni að færa hverju barni eitthvað hlýtt og notalegt heimaprjónað eða heklað. Um síðustu helgi kláraði ég litla sokkaskó handa litlu þjóðhátíðardömunni, frænkunni sem fæddist á 17. júní. Uppskriftina fann ég á gömlu ljósriti úr "Nýju kvennablaði" sem, ef ég hef kynnt mér rétt, var gefið út á árunum 1940-1964. Mér finnst algjör fjársjóður að komast í svona gamlar uppskriftir og vinna með. Sokkaskóna prjónaði ég úr Lanett-garni frá norska framleiðandanum Sandnes á prjóna nr. 2 1/2. Um leið og ég prjónaði sokkaskóna, breytti ég uppskriftinni örlítið að mínum hætt og er mjög ánægð með árangurinn. Næst er svo að prjóna annað par og skrifa þá niður breytingarnar um leið.
Hér má sjá árangurinn. Það var með ráðum gert að hafa bandið örlítið strekkt til að sokkaskórnir haldist betur á fætinum og svo er bara að sjá hvernig litla eigandanum og foreldrunum líkar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli