Það er magnað hvað safnast saman hjá manni af litlum hnyklum og afgöngum. Ég hef haft það fyrir reglu að safna svipuðum grófleika af garni saman í box, léttlopaafgöngum saman o.s.frv. Alltaf öðru hvoru tek ég boxin og geri eitthvað við innihaldið. Ótrúlegt en satt, að þó fallegir og nytsamlegir hlutir verði til, þá minnkar magnið í boxunum ótrúlega lítið, engu líkara en það margfaldist.
Nú fyrir stuttu tók ég mig til og prjónaði nokkur vettlingapör handa litlu fingrunum sem bæst hafa í fjölskyldur okkar Axels á undanförnum vikum. Oft tek ég minnstu hnyklana og skipti þeim í tvennt, þá nær maður að klára þá alveg.
Það er engin uppskrift af þessum vettlingum en ég reyni að vanda litasamsetningar. Ég hef sankað að mér góðu úrvali af satínborðum, gríp oft ef ég sé á tilboði t.d. í Föndru eða A4, oft fær maður borða utan um gjafir og svo hef ég fundið að besta verðið er sennilega hjá Söstrene Grene en þar hef ég fengið 11 metra af 7 millimetra borða á 199 krónur.
Það er líka alltaf sígilt að prjóna Barbie-föt. Ég hef fundið góða síðu með ógrynni uppskrifta http://www.stickatillbarbie.se/ Það er óhætt að segja að þarna getur hver og einn fundið eitthvað við sitt hæfi.
... og svo er bara að fitja upp.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli