þriðjudagur, 30. janúar 2018

Ekki dauð í öllum æðum ...

Sennilega er ég ekki heimsins besti bloggari en allt í einu mundi ég eftir að ég eitthvað reynt að halda saman handavinnunni minni hér. Kannski sést það best á því að færslan sem ég setti inn hér áðan, var óvistuð frá því í nóvember ´14. Kannski ég taki mig nú taki og reyni að sinna reglulegu bloggi, þó ekki sé nema af og til.
Það er þó alls ekki þannig að ég hafi setið auðum höndum frá því haustið 2014 og í raun ansi margt sem hefur dottið af prjónunum, af nálinni eða undan nálinni frá því þá. Undanfarið hafa ófá vettlingapör runnið af prjónum, bæði leikskólavettlingar sem hafa verið seldir eða gefnir til kunnra og ókunnra, vettlingar sem voru prjónaðir og gefnir í jólagjafir og vettlingar sem prjónaðir voru á sundlaugabakkanum á Fuerteventura um jól og áramót. Já, fjölskyldan eyddi 11 dögum á sólarströnd og hefur aldrei gert það áður á þessum árstíma. Þetta er þó klárlega eitthvað sem við myndum gera aftur. Yndislegir dagar í 19-23 stiga hita í algjörri afslöppun, ja og auðvitað sat ég með prjónana. Ég hafði tekið með mér bókina Vettlingar/Mittens og einhverja hnykla af kambgarni sem ég á víst alveg nóg af og þar prjónuðust nokkur pör.



... og ekki nóg með það, heldur er svo ótrúlega gaman að prjóna þessa vettlinga að ég held áfram og enn bætist við. Læt þetta duga í bili og lít hér aftur við fljótlega. Góðar stundir ...

Ekki alveg gleymt blogg ...

Ja hérna hér, hér hef ég ekki litið við í heila þrjá mánuði. Kannski sýnir þetta hversu lítill bloggari ég er eða kannski bara hve mikið er að gera, að maður gefi sér ekki tíma til að skrifa neitt. Ég hef þó síður en svo setið auðum höndum heldur prjóna eða hekla eins og enginn sé morgundagurinn. Þrátt fyrir verkfall tónlistarkennara, hefur verið mikið að gera hjá dótturinni, bæði í Sönglist og einnig í Stúlknakór Grafarvogskirkju sem er hluti af Stúlknakór Reykjavíkur. Mikið um æfingar og þegar upp er staðið, gerir þetta henni bara gott í tónlistaruppeldi. Og á meðan hún æfir með kórnum, situr móðirin með prjónana og hespar af fleiri flíkum. Kvöldin eru einnig notadrjúg yfir sjónvarpinu enda er ég búin að komast upp á einstaklega gott lag með að prjóna og hlusta um leið, og jafnvel að hafa opna fartölvuna á meðan og fylgjast með á facebook.
Fyrir stuttu bað dóttirin um neonlita vettlinga fyrir veturinn og auðvitað var ekki hægt að neita henni um það. Að sjálfsögðu var ekki prjónað bara eitt par heldur fleiri sem hafa ratað í afmælisgjafir og einnig í sölu, auk vagnsokka á litla fætur. Það segir sig sjálft að svona neom-vettlingar eru sko flottir:

Frá síðustu færslu hefur fjölskyldan skroppið í sumarbústað og í helgarferð til Billund í Danmörku. Að sjálfsögðu er tíminn nýttur vel í bústað enda hvergi betra að slaka á með prjónana, jú og í Danmörku var líka tekið í prjónana.
Í dag er litla frænka eiginmannsins eins árs en hún var fyrsta barnið í þeirri barnasprengju sem helltist yfir okkur. Flest þessara barna hafa fengið heilgalla frá frænku í Foldinni og þó þeir séu orðnir nokkrir gallarnir er enginn eins og allir fremur ólíkir.