Sennilega er ég ekki heimsins besti bloggari en allt í einu mundi ég eftir að ég eitthvað reynt að halda saman handavinnunni minni hér. Kannski sést það best á því að færslan sem ég setti inn hér áðan, var óvistuð frá því í nóvember ´14. Kannski ég taki mig nú taki og reyni að sinna reglulegu bloggi, þó ekki sé nema af og til.
Það er þó alls ekki þannig að ég hafi setið auðum höndum frá því haustið 2014 og í raun ansi margt sem hefur dottið af prjónunum, af nálinni eða undan nálinni frá því þá. Undanfarið hafa ófá vettlingapör runnið af prjónum, bæði leikskólavettlingar sem hafa verið seldir eða gefnir til kunnra og ókunnra, vettlingar sem voru prjónaðir og gefnir í jólagjafir og vettlingar sem prjónaðir voru á sundlaugabakkanum á Fuerteventura um jól og áramót. Já, fjölskyldan eyddi 11 dögum á sólarströnd og hefur aldrei gert það áður á þessum árstíma. Þetta er þó klárlega eitthvað sem við myndum gera aftur. Yndislegir dagar í 19-23 stiga hita í algjörri afslöppun, ja og auðvitað sat ég með prjónana. Ég hafði tekið með mér bókina Vettlingar/Mittens og einhverja hnykla af kambgarni sem ég á víst alveg nóg af og þar prjónuðust nokkur pör.
... og ekki nóg með það, heldur er svo ótrúlega gaman að prjóna þessa vettlinga að ég held áfram og enn bætist við. Læt þetta duga í bili og lít hér aftur við fljótlega. Góðar stundir ...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli