fimmtudagur, 7. ágúst 2014

Og enn af afgangaprjóni ...

Þar sem mikið er prjónað verður oft líka mikið um afganga. Kannski leynist líka einhver garnfíkn í manni, alla vega er alltaf mjög freistandi að þukla og kaupa fallega liti af mjúku garni sem kallar á að prjónuð sé einhver flík. Það gerist svo ekki alltaf og því vilja hnyklafjöllin verða há. Ég ætla svo sem ekkert að setja það hér hvað ég á af garni og afgöngum, en það er í það minnsta nóg til.
Um daginn bað granna mín mig að prjóna fyrir sig vagnsokka á soninn sem er innan við ársgamall. Ég tók fram hálfar dokkur og misstóra hnykla af léttlopa, suma svo litla að einhverjir hefðu bara hent þeim. Ég er hins vegar alin upp við nýtni og hef tekið hnykla og dokkur og vafið upp í tvo jafna hluta, því það er jú skemmtilegra að hafa sokkana nokkuð líka.
Þetta eru fyrstu sex pörin af vagnsokkum, með víðu stroffi, litríkir og hlýjir. Fleiri sokkapör eru í vinnslu enda margar litlar táslur í kringum mig sem eflaust vantar eitthvað hlýtt fyrir veturinn.

Fyrir stuttu prjónaði ég peysu á litlu Kristínu Erlu (frænku eiginmannsins). Uppskriftin var úr litlum bæklingu frá Hjertegarn og tókst glimrandi vel. Reyndar skildi ég ekki alveg einhverja prjónaaðferð sem nota átti í nokkrum umferðum en breytti þeim bara í garðaprjón og tókst það bara vel. Peysan var úr rjómalitu Merino Blend úr Rúmfatalagernum sem er mjög gott garn í ungbarnaflík og ekki skemmir að að er vélþvægt garn. Mér fannst peysan hálf litlaus þegar hún var tilbúin og saumaði ég því blóm í berustykkið og það lífgaði hana nokkuð eins og sjá má:
Skokkurinn var prjónaður eftir uppskrift úr sama blaði en úr Vital frá Hjertegarn.
Þar sem peysan heppnaðist svo vel, ákvað ég að "skutla" í eina handa Brimari Nóa (frænda eiginmannsins) þar sem þetta væri fljótprjónuð og falleg peysa. Í hana notaði ég drapplitað Sportsgarn frá Europris/BYKO og tókst hún líka vel. Til að "poppa" hana aðeins upp, notaði ég mislitar trétölur frá frænkum mínum í Freistingarsjoppunni á Selfossi og saumaði lítinn bíl í aðra hliðina. Það kom vel út og passa vonandi litla manninum vel.
Enn og aftur tók ég upp prjónana og prjónaði nú þriðju peysuna eftir sömu uppskriftinni. Sú peysa var úr rauðu Sportsgarni frá Europris/BYKO handa Móeyju litlu frænku minni. Í þetta skiptið ákvað ég að leyfa rauða litnum að njóta sín en saumaði fallegar Maríuhænu-tölur á peysuna.
Það sem mér finnst svo frábært við prjónaskapinn er að þó þú notir sömu uppskriftina aftur og aftur en breytir bara aðeins út frá s.s. með lit, tölum, ísaum eða öðru, þá verður afraksturinn svo misjafn. Peysurnar finnst mér hver annarri fallegri og þær eru í raun mjög ólíkar þrátt fyrir að vera allar eins. Sama gildir um vagnsokkana hér að ofan, mismunandi litir, munstur eða rendur breyta hverju pari og um að gera að leyfa hugmyndafluginu að ráða, já eða bara því sem kemur upp úr körfunni. Svona prjónar maður "af fingrum fram".




Engin ummæli:

Skrifa ummæli