Fyrir stuttu prjónaði ég fallega opna hettupeysu úr léttlopa. Uppskriftina var að finna á síðu istex.is og tókst hún bara glimrandi vel.
Þessi peysa er öðruvísi en aðrar sem ég hef prjónað, að því leiti að í stað stroffa er perluprjónskantur og að neðan geymir maður lykkjur á meðan bolurinn er prjónaður. Peysan er svo opnuð, perluprjónslíningin prjónuð áfram og er í lokin prjónuð með hettunni. Ég komst að ýmsu við gerð þessarar peysu:
a) það borgar sig að byrja á hnappalíningunni og sauma hana jafnóðum niður. Til að koma í veg fyrir fláa, þarf í raun að strekkja aðeins á þegar kanturinn er saumaður niður því við notkun, teygist á líningunni.
b) þegar búið er að prjóna hnappalíninguna er gott að sauma tölurnar strax á ÁÐUR en byrjað er á hinum listanum. Þá er auðvelt að gera hnappagötin á rétta staði.
c) þegar ég var búin með peysuna, fannst mér sárið þar sem ég klippti ekki fallegt. Mér fannst sjást alltof mikið í tvinnann í munstrinu en ég notaði dökkbrúnan tvinna. Ég velti fyrir mér hvernig ég gæti falið þetta og datt í hug að prófa að "kappmella" yfir sauminn og var ég þokkalega sátt við árangurinn.
d) síðast en ekki síst er mikilvægt að lesa vel yfir alla uppskriftina áður en maður byrjar og reyna að sjá fyrir sér hvernig best er að leysa úr ef upp koma vandamál.
Það er ögrandi að takast á við það óvænta í prjónaskapnum og finna lausnir. Við hverja nýja uppskrift sem ég nota kemur eitthvað í reynslubankann. Það er mikilvægt að halda utan um það sem reynist manni vel, já og reyndar líka illa því þannig lærir maður einnig af mistökunum. Í upphafi skyldi endirinn skoða ...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli