Litla fjölskyldan í Foldunum lagði land undir fót á föstudaginn og brunaði á litla (Ya)-risanum norður í land. Við tókum stefnuna á Blönduós og gistum þá um nóttina á Gistiheimilinu Tilraun sem staðsett er í gamla hlutanum á Blönduósi, áður en maður fer yfir brúna. Húsið minnir mig að sé byggt 1903 og er allt nýuppgert og endurnýjað á vandaðan hátt. Gott herbergi með góðum rúmum, sameiginlegt baðherbergi og aðgangur að eldhúsi og setustofu var einnig yndislegt að hafa og áttum við góða nótt þar. Á laugardaginn tókum við daginn snemma borðuðum góðan morgunmat áður en við lögðum af stað áfram. Við keyrðum til Dalvíkur og tókum þátt í fiskideginum mikla í ágætisveðri. Mikið og margt að spjalla og gaman að fylgjast með dagskrá af sviði. Mér fannst virkilega frábært og gaman að sjá hvað íslendingar eru duglegir að nota íslenska lopann og hvað margir gestir á fiskideginum klæddust lopapeysum í mikilli fjölbreytni. Þetta sýnir okkur enn og aftur hvað íslenska ullin er góð, hlý og hvað margt duglegt prjónafólk er til á landinu.
Á laugardaginn gistum við á Gistiheimilinu Súlum á Akureyri. Við fengum fjölskylduherbergi á stúdentaíbúðum við Klettagötu (eða Klettabrún) og var sama fyrirkomulagið þar, sameiginlegt baðherbergi ásamt eldhúsi og setustofu. Ekki eins nýtt eða fínt og á Blönduósi en dýrara, það fór líka ágætlega um okkur þar innan um hina útlendingana. Sunnudagurinn var einnig tekinn snemma og vorum við mæðgur mættar rétt eftir opnum á Handverkshátíðina á Hrafnagili. Eiginmaðurinn fór hins vegar á flugsafnið á Akureyri á meðan - misjöfn eru áhugamál fjölskyldumeðlima en þannig var auðvelt að gera öllum til hæfis. Það eru nokkur ár síðan ég hef farið á handverkshátíðina en maður minn hvað var gaman og ég hefði viljað eyða þar miklu, miklu lengri tíma. Íslenskt handverk sem þar var til sýnis og sölu var á heimsmælikvarða, fjölbreytt, vandað og fallegt. Við mæðgurnar skoðuðum okkur um og reyndar heillaði matartjaldið dótturina mest og hefði, ef hún hefði ráðið, verið þar allan daginn. Harðfiskur, rófur, hangikjöt og grafið, ostar og sultur og mín stóð á beit. Saman nutum við okkur svo við að skoða alls kyns handavinnu.
Á sýningunni nældi ég mér í áskrift af Húsfreyjunni, fékk tvö nýjustu blöðin og þrjú eldri. Ég hef stundum laumast í þau á bókasafninu en talið þau frekar fyrir svona "eldri konur" ... kannski ég teljist bara til þeirra orðið og þurfi ekkert að fara í felur með þetta. Húsfreyjan er fjölbreytt blað með viðtölum við konur í frumkvöðlastörfum, matargerð og hvers kyns handavinnu. Við stöldruðum lengi við bása Heimilisiðnaðarfélagsins og einnig Annríkis en dótturina langar mikið í íslenska þjóðbúninginn, athugum það þegar hún hefur náð meiri hæð og þroska, þá getum við e.t.v. farið á námskeið saman. Básarnir með jurtalitaða bandinu voru einnig sérlega spennandi og auðvitað fékk pyngjan aðeins að finna fyrir því, erfitt að halda aftur af sér í svona gersemum. Dásamleg sýning og á ég örugglega eftir að heimsækja hana aftur og þá að eyða enn meiri tíma.
Áður en litla fjölskyldan brunaði af stað aftur til borgarinnar, kíktum við í Jólahúsið í Hrafnagili. Það er fastur liður að heimsækja það þegar maður er staddur á norðurlandinu. Þar hefur heldur betur verið bætt við húsakosti og verslunarrými gert enn hærra undir höfði. Ég verð þó að segja eins og er að verðlagið í Jólahúsinu finnst mér ansi hátt og þótt úrvalið sé mikið er samt ótrúlega lítið þar af íslensku handverki. Eins og ég sagði hér fyrr, eigum við íslendingar handverksfólk á heimsmælikvarða og finndist mér gaman að sjá meira af því þarna.
Góð helgi að baki og svo tekur alvaran við ...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli