miðvikudagur, 27. ágúst 2014

Prjónaleti eða algjör leti ... hvað er málið???

Það er einhver leti búin að hrjá mig síðustu dagana. Kannski er það ekki beint leti heldur þreyta eftir að byrja að vinna aftur eftir gott sumarfrí. Undanfarna daga hef ég varla gripið prjónana yfir sjónvarpinu heldur hálf dormað og ekki hef ég heldur nennt að setja inn pistil hér. Það eina sem ég gríp í í höndunum þessa dagana eru litlar dúllur sem ég hekla í frímínútum í vinnunni. Ég er reyndar nokkuð spennt að sjá hver útkoman verður en garnið sem ég nota, keypti ég á handverkshátíðinni á Hrafnagili nú í ágúst en það er jurtalitað. Ég keypti fjórar 25 gramma hespur og ætla að sjá hvað það dugar og hekla saman úr hvítu eða gráu einbandi. Enginn hætta á öðru en ég setji inn mynd að því loknu.
Og aftur að prjónaletinni. Það er nefnilega ekki oft sem ég legg frá mér óklárað prjónles en það hef ég einmitt gert núna. Þannig er að ég er að prjóna heilgalla handa lítilli frænku og finnst svolítið dularfullt hvað hann er mjór. Ég er búin að skoða gallann aftur og aftur og sýnist á öllu að skynsamlegast sé að rekja hann upp og prjóna stærri (og þar af leiðandi víðari) en hafa lengdirnar þær sömu. Og á meðan ég hugsa um gallann og upprakningu gerist ekkert ... og til að kóróna allt, þá er ég í raun búin að prjóna gallann og meira að segja lykkja hettuna saman. Svona er þetta með meyjuna sem vill hafa allt vel gert og vandað sem hún lætur frá sér, og ég veit sem er, að ég verð ekki ánægð með gallann svona og litla frænka getur varla notað hann svona heldur.
Kannski þetta skemmtilega lag komi manni í gírinn ...  https://www.youtube.com/watch?v=mLI3SaKkMkM


Engin ummæli:

Skrifa ummæli