mánudagur, 30. júní 2014

Í upphafi skyldi endirinn skoða ...

Fyrir stuttu prjónaði ég fallega opna hettupeysu úr léttlopa. Uppskriftina var að finna á síðu istex.is og tókst hún bara glimrandi vel.
Þessi peysa er öðruvísi en aðrar sem ég hef prjónað, að því leiti að í stað stroffa er perluprjónskantur og að neðan geymir maður lykkjur á meðan bolurinn er prjónaður. Peysan er svo opnuð, perluprjónslíningin prjónuð áfram og er í lokin prjónuð með hettunni. Ég komst að ýmsu við gerð þessarar peysu:
a) það borgar sig að byrja á hnappalíningunni og sauma hana jafnóðum niður. Til að koma í veg fyrir fláa, þarf í raun að strekkja aðeins á þegar kanturinn er saumaður niður því við notkun, teygist á líningunni.
b) þegar búið er að prjóna hnappalíninguna er gott að sauma tölurnar strax á ÁÐUR en byrjað er á hinum listanum. Þá er auðvelt að gera hnappagötin á rétta staði.
c) þegar ég var búin með peysuna, fannst mér sárið þar sem ég klippti ekki fallegt. Mér fannst sjást alltof mikið í tvinnann í munstrinu en ég notaði dökkbrúnan tvinna. Ég velti fyrir mér hvernig ég gæti falið þetta og datt í hug að prófa að "kappmella" yfir sauminn og var ég þokkalega sátt við árangurinn.
d) síðast en ekki síst er mikilvægt að lesa vel yfir alla uppskriftina áður en maður byrjar og reyna að sjá fyrir sér hvernig best er að leysa úr ef upp koma vandamál. 
Það er ögrandi að takast á við það óvænta í prjónaskapnum og finna lausnir. Við hverja nýja uppskrift sem ég nota kemur eitthvað í reynslubankann. Það er mikilvægt að halda utan um það sem reynist manni vel, já og reyndar líka illa því þannig lærir maður einnig af mistökunum. Í upphafi skyldi endirinn skoða ...


mánudagur, 23. júní 2014

Never not knitting - Theme song

Uppáhaldslag prjónakonunnar sem segir svo margt: 
https://www.youtube.com/watch?v=mLI3SaKkMkM

Týndi sauðurinn

Í vetur bauðst íslendingum að taka þátt í verkefninu Imago Mundi en það er myndasöfnum Lucianos Benetton af ólíkum myndum ólíkra listamanna. Viðfangsefni var blindrammi 10x12 cm að stærð og voru hendur frjálsar um listsköpun. Slagorð Benetton, United Colours of Benetton, sýnir því í raun fjölbreytileikann í þessari listsköpun. Ég ákvað að vinna út frá náttúrunni og nota íslensku ullina, hugmyndin að Týnda sauðnum fékk ég þegar ég hugsaði til þess illviðris sem geisaði á norðurlandi árið 2012 og margt sauðfé grófst í snjó. Bændur leituðu kindanna vikum saman, sumar fundust dauðar en ótrúlega margar lifðu af langan tíma grafnar í fönn.

Týndi sauðurinn er ein af yfir 140 myndum sem íslenskir listamenn, þekktir og óþekktir unnu og verða sýnd á sýningu á Ítalíu nú í júlí. Hér að ofan má sjá mynd af sýningarskránni og þeirri opnu sem myndin mín fékk.

föstudagur, 20. júní 2014

"Mittens in making"

Þetta vorið hef ég verið nokkuð iðin að taka til hendinni og nýta afgangshnykla í vettlinga í trausti þess að mér takist að selja eitthvað af þeim. Í versta falli (eða besta) eru þeir afar hentugir í afmælis- eða jólagjafir en kannski finnst engum gaman að fá lopavettlinga í afmælisgjöf um hásumar. Skiljanlega, þegar maður notar afganga, verður útkoman stundum skrautleg eins og sjá má:

Þegar ég prjóna vettlinga fyrir 0-7 ára, hef ég þá yfirleitt háa þannig að hægt sé að setja þá inn undir eða utan yfir ermi. Þannig kemur maður í veg fyrir að snjór, bleyta eða kuldi komist á milli og það minnkar einnig líkurnar á að vettlingarnir týnist. Oftast hef ég klukkuprjón í stað stroffs og prjóna nokkrar umferðir áður en ég prjóna belginn. Ég hef enga uppskrift af þessum vettlingum, hef einhverja "formúlu" í kollinum sem ég fer eftir.
Stærri vettlinga prjóna yfirleitt hefðbundna og oft upp úr mér. Þegar afgangar eru nýttir getur litasamsetningin orðið skrautleg en einhvern veginn verð ég þó oftast sátt við árangurinn.
Reyndar er ein bók sem mér finnst sérlega gott að nota við vettlingaprjón úr lopa og er það bók Kristínar Harðardóttur, Vettlingar og fleira. Þar hef ég stuðst við uppskriftir sem miðaðar eru við tvöfaldan plötulopa og verður stærðin þá unglinga- eða dömustærð. Ef ég hins vegar nota sömu uppskriftina og prjóna úr léttlopa, er ég komin með stærð ca. 10-12 ára. Á myndinni hér að ofan eru vettlingarnir vinstra megin úr tvöföldum plötulopa en þeir hægra megin eru úr léttlopa. Gaman væri að prófa að prjóna vettlinga úr Álafosslopa eftir sömu uppskrift og sjá hvaða stærð fæst úr því ... "Mittens in making"...


fimmtudagur, 12. júní 2014

Endalausir endar ...

Það er alveg hreint ótrúlegt hvað mér finnst gaman að prjóna, og ef satt skal segja, held ég svei mér þá að ég sé bara nokkuð dugleg. Eitt er þó sem mér finnst afspyrnuleiðinlegt við prjónaskapinn en það er að ganga frá endunum. Og það virðist alveg sama hvernig ég reyni að setja mér það markmið að ganga frá endum áður en ég byrja á nýju stykki, þetta virðist hreint ekki hægt. Einn daginn situr maður svo uppi með fullan poka af ófrágengnu prjónlesi. Oft hef ég velt því fyrir mér að prjóna endana með en þegar ég er byrjuð að prjóna, gleymist allt annað. Móðir mín er afkastamikil prjónakona og hún er sko með starfsmann á plani, faðir minn hefur nefnilega í gegnum tíðina gengið frá endum hjá henni. Ég hef stundum fengið ábendingar frá öðrum um að fá eiginmanninn í verkið en þar sem ég er "meyja" í gegn er ég hreint ekki viss um að það yrði heillavænlegt ... svo þá er víst ekki annað í stöðunni en að gera þetta sjálfur með gleðibros á vör.

mánudagur, 9. júní 2014

... og þá er bara að byrja.

Stundum hef ég velt því fyrir mér að setja upp bloggsíðu, eiginlega bara fyrir mig sjálfa til að halda utan um handavinnuna mína. Kannski er þetta algjör vitleysa og eitthvað sem ég gefst fljótlega upp á en ég ætla samt að láta á það reyna. Prjónar, hekl, útsaumur, vélsaumur, bútasaumur ... allt er þetta eitthvað sem hefur farið um fingurna á mér og ef satt skal segja, í ótrúlegu magni. Skápar og skúffur, körfur, kassar og aðrar hirslur eru yfirfullar af góssi sem bíður eftir að unnið sé úr hlýjir, góðir, mjúkir eða fallegir munir sem vonandi gleðja einhvern. Hér ætla ég því líka að smella inn myndum, fróðleik og ef til vill einhverju fleira líka ... og þá er bara að byrja.