Það er alveg hreint ótrúlegt hvað mér finnst gaman að prjóna, og ef satt skal segja, held ég svei mér þá að ég sé bara nokkuð dugleg. Eitt er þó sem mér finnst afspyrnuleiðinlegt við prjónaskapinn en það er að ganga frá endunum. Og það virðist alveg sama hvernig ég reyni að setja mér það markmið að ganga frá endum áður en ég byrja á nýju stykki, þetta virðist hreint ekki hægt. Einn daginn situr maður svo uppi með fullan poka af ófrágengnu prjónlesi. Oft hef ég velt því fyrir mér að prjóna endana með en þegar ég er byrjuð að prjóna, gleymist allt annað. Móðir mín er afkastamikil prjónakona og hún er sko með starfsmann á plani, faðir minn hefur nefnilega í gegnum tíðina gengið frá endum hjá henni. Ég hef stundum fengið ábendingar frá öðrum um að fá eiginmanninn í verkið en þar sem ég er "meyja" í gegn er ég hreint ekki viss um að það yrði heillavænlegt ... svo þá er víst ekki annað í stöðunni en að gera þetta sjálfur með gleðibros á vör.
Þið væruð góð saman hjónakornin, bríser í annarri og endalaust eitthvað í hinni ;)
SvaraEyða