föstudagur, 20. júní 2014

"Mittens in making"

Þetta vorið hef ég verið nokkuð iðin að taka til hendinni og nýta afgangshnykla í vettlinga í trausti þess að mér takist að selja eitthvað af þeim. Í versta falli (eða besta) eru þeir afar hentugir í afmælis- eða jólagjafir en kannski finnst engum gaman að fá lopavettlinga í afmælisgjöf um hásumar. Skiljanlega, þegar maður notar afganga, verður útkoman stundum skrautleg eins og sjá má:

Þegar ég prjóna vettlinga fyrir 0-7 ára, hef ég þá yfirleitt háa þannig að hægt sé að setja þá inn undir eða utan yfir ermi. Þannig kemur maður í veg fyrir að snjór, bleyta eða kuldi komist á milli og það minnkar einnig líkurnar á að vettlingarnir týnist. Oftast hef ég klukkuprjón í stað stroffs og prjóna nokkrar umferðir áður en ég prjóna belginn. Ég hef enga uppskrift af þessum vettlingum, hef einhverja "formúlu" í kollinum sem ég fer eftir.
Stærri vettlinga prjóna yfirleitt hefðbundna og oft upp úr mér. Þegar afgangar eru nýttir getur litasamsetningin orðið skrautleg en einhvern veginn verð ég þó oftast sátt við árangurinn.
Reyndar er ein bók sem mér finnst sérlega gott að nota við vettlingaprjón úr lopa og er það bók Kristínar Harðardóttur, Vettlingar og fleira. Þar hef ég stuðst við uppskriftir sem miðaðar eru við tvöfaldan plötulopa og verður stærðin þá unglinga- eða dömustærð. Ef ég hins vegar nota sömu uppskriftina og prjóna úr léttlopa, er ég komin með stærð ca. 10-12 ára. Á myndinni hér að ofan eru vettlingarnir vinstra megin úr tvöföldum plötulopa en þeir hægra megin eru úr léttlopa. Gaman væri að prófa að prjóna vettlinga úr Álafosslopa eftir sömu uppskrift og sjá hvaða stærð fæst úr því ... "Mittens in making"...


Engin ummæli:

Skrifa ummæli