þriðjudagur, 30. janúar 2018

Ekki dauð í öllum æðum ...

Sennilega er ég ekki heimsins besti bloggari en allt í einu mundi ég eftir að ég eitthvað reynt að halda saman handavinnunni minni hér. Kannski sést það best á því að færslan sem ég setti inn hér áðan, var óvistuð frá því í nóvember ´14. Kannski ég taki mig nú taki og reyni að sinna reglulegu bloggi, þó ekki sé nema af og til.
Það er þó alls ekki þannig að ég hafi setið auðum höndum frá því haustið 2014 og í raun ansi margt sem hefur dottið af prjónunum, af nálinni eða undan nálinni frá því þá. Undanfarið hafa ófá vettlingapör runnið af prjónum, bæði leikskólavettlingar sem hafa verið seldir eða gefnir til kunnra og ókunnra, vettlingar sem voru prjónaðir og gefnir í jólagjafir og vettlingar sem prjónaðir voru á sundlaugabakkanum á Fuerteventura um jól og áramót. Já, fjölskyldan eyddi 11 dögum á sólarströnd og hefur aldrei gert það áður á þessum árstíma. Þetta er þó klárlega eitthvað sem við myndum gera aftur. Yndislegir dagar í 19-23 stiga hita í algjörri afslöppun, ja og auðvitað sat ég með prjónana. Ég hafði tekið með mér bókina Vettlingar/Mittens og einhverja hnykla af kambgarni sem ég á víst alveg nóg af og þar prjónuðust nokkur pör.



... og ekki nóg með það, heldur er svo ótrúlega gaman að prjóna þessa vettlinga að ég held áfram og enn bætist við. Læt þetta duga í bili og lít hér aftur við fljótlega. Góðar stundir ...

Ekki alveg gleymt blogg ...

Ja hérna hér, hér hef ég ekki litið við í heila þrjá mánuði. Kannski sýnir þetta hversu lítill bloggari ég er eða kannski bara hve mikið er að gera, að maður gefi sér ekki tíma til að skrifa neitt. Ég hef þó síður en svo setið auðum höndum heldur prjóna eða hekla eins og enginn sé morgundagurinn. Þrátt fyrir verkfall tónlistarkennara, hefur verið mikið að gera hjá dótturinni, bæði í Sönglist og einnig í Stúlknakór Grafarvogskirkju sem er hluti af Stúlknakór Reykjavíkur. Mikið um æfingar og þegar upp er staðið, gerir þetta henni bara gott í tónlistaruppeldi. Og á meðan hún æfir með kórnum, situr móðirin með prjónana og hespar af fleiri flíkum. Kvöldin eru einnig notadrjúg yfir sjónvarpinu enda er ég búin að komast upp á einstaklega gott lag með að prjóna og hlusta um leið, og jafnvel að hafa opna fartölvuna á meðan og fylgjast með á facebook.
Fyrir stuttu bað dóttirin um neonlita vettlinga fyrir veturinn og auðvitað var ekki hægt að neita henni um það. Að sjálfsögðu var ekki prjónað bara eitt par heldur fleiri sem hafa ratað í afmælisgjafir og einnig í sölu, auk vagnsokka á litla fætur. Það segir sig sjálft að svona neom-vettlingar eru sko flottir:

Frá síðustu færslu hefur fjölskyldan skroppið í sumarbústað og í helgarferð til Billund í Danmörku. Að sjálfsögðu er tíminn nýttur vel í bústað enda hvergi betra að slaka á með prjónana, jú og í Danmörku var líka tekið í prjónana.
Í dag er litla frænka eiginmannsins eins árs en hún var fyrsta barnið í þeirri barnasprengju sem helltist yfir okkur. Flest þessara barna hafa fengið heilgalla frá frænku í Foldinni og þó þeir séu orðnir nokkrir gallarnir er enginn eins og allir fremur ólíkir.

miðvikudagur, 27. ágúst 2014

Prjónaleti eða algjör leti ... hvað er málið???

Það er einhver leti búin að hrjá mig síðustu dagana. Kannski er það ekki beint leti heldur þreyta eftir að byrja að vinna aftur eftir gott sumarfrí. Undanfarna daga hef ég varla gripið prjónana yfir sjónvarpinu heldur hálf dormað og ekki hef ég heldur nennt að setja inn pistil hér. Það eina sem ég gríp í í höndunum þessa dagana eru litlar dúllur sem ég hekla í frímínútum í vinnunni. Ég er reyndar nokkuð spennt að sjá hver útkoman verður en garnið sem ég nota, keypti ég á handverkshátíðinni á Hrafnagili nú í ágúst en það er jurtalitað. Ég keypti fjórar 25 gramma hespur og ætla að sjá hvað það dugar og hekla saman úr hvítu eða gráu einbandi. Enginn hætta á öðru en ég setji inn mynd að því loknu.
Og aftur að prjónaletinni. Það er nefnilega ekki oft sem ég legg frá mér óklárað prjónles en það hef ég einmitt gert núna. Þannig er að ég er að prjóna heilgalla handa lítilli frænku og finnst svolítið dularfullt hvað hann er mjór. Ég er búin að skoða gallann aftur og aftur og sýnist á öllu að skynsamlegast sé að rekja hann upp og prjóna stærri (og þar af leiðandi víðari) en hafa lengdirnar þær sömu. Og á meðan ég hugsa um gallann og upprakningu gerist ekkert ... og til að kóróna allt, þá er ég í raun búin að prjóna gallann og meira að segja lykkja hettuna saman. Svona er þetta með meyjuna sem vill hafa allt vel gert og vandað sem hún lætur frá sér, og ég veit sem er, að ég verð ekki ánægð með gallann svona og litla frænka getur varla notað hann svona heldur.
Kannski þetta skemmtilega lag komi manni í gírinn ...  https://www.youtube.com/watch?v=mLI3SaKkMkM


mánudagur, 11. ágúst 2014

Ferðahelgi ársins hjá fjölskyldunni.

Litla fjölskyldan í Foldunum lagði land undir fót á föstudaginn og brunaði á litla (Ya)-risanum norður í land. Við tókum stefnuna á Blönduós og gistum þá um nóttina á Gistiheimilinu Tilraun sem staðsett er í gamla hlutanum á Blönduósi, áður en maður fer yfir brúna. Húsið minnir mig að sé byggt 1903 og er allt nýuppgert og endurnýjað á vandaðan hátt. Gott herbergi með góðum rúmum, sameiginlegt baðherbergi og aðgangur að eldhúsi og setustofu var einnig yndislegt að hafa og áttum við góða nótt þar. Á laugardaginn tókum við daginn snemma borðuðum góðan morgunmat áður en við lögðum af stað áfram. Við keyrðum til Dalvíkur og tókum þátt í fiskideginum mikla í ágætisveðri. Mikið og margt að spjalla og gaman að fylgjast með dagskrá af sviði. Mér fannst virkilega frábært og gaman að sjá hvað íslendingar eru duglegir að nota íslenska lopann og hvað margir gestir á fiskideginum klæddust lopapeysum í mikilli fjölbreytni. Þetta sýnir okkur enn og aftur hvað íslenska ullin er góð, hlý og hvað margt duglegt prjónafólk er til á landinu.
Á laugardaginn gistum við á Gistiheimilinu Súlum á Akureyri. Við fengum fjölskylduherbergi á stúdentaíbúðum við Klettagötu (eða Klettabrún) og var sama fyrirkomulagið þar, sameiginlegt baðherbergi ásamt eldhúsi og setustofu. Ekki eins nýtt eða fínt og á Blönduósi en dýrara, það fór líka ágætlega um okkur þar innan um hina útlendingana. Sunnudagurinn var einnig tekinn snemma og vorum við mæðgur mættar rétt eftir opnum á Handverkshátíðina á Hrafnagili. Eiginmaðurinn fór hins vegar á flugsafnið á Akureyri á meðan - misjöfn eru áhugamál fjölskyldumeðlima en þannig var auðvelt að gera öllum til hæfis. Það eru nokkur ár síðan ég hef farið á handverkshátíðina en maður minn hvað var gaman og ég hefði viljað eyða þar miklu, miklu lengri tíma. Íslenskt handverk sem þar var til sýnis og sölu var á heimsmælikvarða, fjölbreytt, vandað og fallegt. Við mæðgurnar skoðuðum okkur um og reyndar heillaði matartjaldið dótturina mest og hefði, ef hún hefði ráðið, verið þar allan daginn. Harðfiskur, rófur, hangikjöt og grafið, ostar og sultur og mín stóð á beit. Saman nutum við okkur svo við að skoða alls kyns handavinnu.
Á sýningunni nældi ég mér í áskrift af Húsfreyjunni, fékk tvö nýjustu blöðin og þrjú eldri. Ég hef stundum laumast í þau á bókasafninu en talið þau frekar fyrir svona "eldri konur" ... kannski ég teljist bara til þeirra orðið og þurfi ekkert að fara í felur með þetta. Húsfreyjan er fjölbreytt blað með viðtölum við konur í frumkvöðlastörfum, matargerð og hvers kyns handavinnu. Við stöldruðum lengi við bása Heimilisiðnaðarfélagsins og einnig Annríkis en dótturina langar mikið í íslenska þjóðbúninginn, athugum það þegar hún hefur náð meiri hæð og þroska, þá getum við e.t.v. farið á námskeið saman. Básarnir með jurtalitaða bandinu voru einnig sérlega spennandi og auðvitað fékk pyngjan aðeins að finna fyrir því, erfitt að halda aftur af sér í svona gersemum. Dásamleg sýning og á ég örugglega eftir að heimsækja hana aftur og þá að eyða enn meiri tíma.
Áður en litla fjölskyldan brunaði af stað aftur til borgarinnar, kíktum við í Jólahúsið í Hrafnagili. Það er fastur liður að heimsækja það þegar maður er staddur á norðurlandinu. Þar hefur heldur betur verið bætt við húsakosti og verslunarrými gert enn hærra undir höfði. Ég verð þó að segja eins og er að verðlagið í Jólahúsinu finnst mér ansi hátt og þótt úrvalið sé mikið er samt ótrúlega lítið þar af íslensku handverki. Eins og ég sagði hér fyrr, eigum við íslendingar handverksfólk á heimsmælikvarða og finndist mér gaman að sjá meira af því þarna.
Góð helgi að baki og svo tekur alvaran við ...

fimmtudagur, 7. ágúst 2014

Og enn af afgangaprjóni ...

Þar sem mikið er prjónað verður oft líka mikið um afganga. Kannski leynist líka einhver garnfíkn í manni, alla vega er alltaf mjög freistandi að þukla og kaupa fallega liti af mjúku garni sem kallar á að prjónuð sé einhver flík. Það gerist svo ekki alltaf og því vilja hnyklafjöllin verða há. Ég ætla svo sem ekkert að setja það hér hvað ég á af garni og afgöngum, en það er í það minnsta nóg til.
Um daginn bað granna mín mig að prjóna fyrir sig vagnsokka á soninn sem er innan við ársgamall. Ég tók fram hálfar dokkur og misstóra hnykla af léttlopa, suma svo litla að einhverjir hefðu bara hent þeim. Ég er hins vegar alin upp við nýtni og hef tekið hnykla og dokkur og vafið upp í tvo jafna hluta, því það er jú skemmtilegra að hafa sokkana nokkuð líka.
Þetta eru fyrstu sex pörin af vagnsokkum, með víðu stroffi, litríkir og hlýjir. Fleiri sokkapör eru í vinnslu enda margar litlar táslur í kringum mig sem eflaust vantar eitthvað hlýtt fyrir veturinn.

Fyrir stuttu prjónaði ég peysu á litlu Kristínu Erlu (frænku eiginmannsins). Uppskriftin var úr litlum bæklingu frá Hjertegarn og tókst glimrandi vel. Reyndar skildi ég ekki alveg einhverja prjónaaðferð sem nota átti í nokkrum umferðum en breytti þeim bara í garðaprjón og tókst það bara vel. Peysan var úr rjómalitu Merino Blend úr Rúmfatalagernum sem er mjög gott garn í ungbarnaflík og ekki skemmir að að er vélþvægt garn. Mér fannst peysan hálf litlaus þegar hún var tilbúin og saumaði ég því blóm í berustykkið og það lífgaði hana nokkuð eins og sjá má:
Skokkurinn var prjónaður eftir uppskrift úr sama blaði en úr Vital frá Hjertegarn.
Þar sem peysan heppnaðist svo vel, ákvað ég að "skutla" í eina handa Brimari Nóa (frænda eiginmannsins) þar sem þetta væri fljótprjónuð og falleg peysa. Í hana notaði ég drapplitað Sportsgarn frá Europris/BYKO og tókst hún líka vel. Til að "poppa" hana aðeins upp, notaði ég mislitar trétölur frá frænkum mínum í Freistingarsjoppunni á Selfossi og saumaði lítinn bíl í aðra hliðina. Það kom vel út og passa vonandi litla manninum vel.
Enn og aftur tók ég upp prjónana og prjónaði nú þriðju peysuna eftir sömu uppskriftinni. Sú peysa var úr rauðu Sportsgarni frá Europris/BYKO handa Móeyju litlu frænku minni. Í þetta skiptið ákvað ég að leyfa rauða litnum að njóta sín en saumaði fallegar Maríuhænu-tölur á peysuna.
Það sem mér finnst svo frábært við prjónaskapinn er að þó þú notir sömu uppskriftina aftur og aftur en breytir bara aðeins út frá s.s. með lit, tölum, ísaum eða öðru, þá verður afraksturinn svo misjafn. Peysurnar finnst mér hver annarri fallegri og þær eru í raun mjög ólíkar þrátt fyrir að vera allar eins. Sama gildir um vagnsokkana hér að ofan, mismunandi litir, munstur eða rendur breyta hverju pari og um að gera að leyfa hugmyndafluginu að ráða, já eða bara því sem kemur upp úr körfunni. Svona prjónar maður "af fingrum fram".




þriðjudagur, 8. júlí 2014

Afgangaprjón

Það er magnað hvað safnast saman hjá manni af litlum hnyklum og afgöngum. Ég hef haft það fyrir reglu að safna svipuðum grófleika af garni saman í box, léttlopaafgöngum saman o.s.frv. Alltaf öðru hvoru tek ég boxin og geri eitthvað við innihaldið. Ótrúlegt en satt, að þó fallegir og nytsamlegir hlutir verði til, þá minnkar magnið í boxunum ótrúlega lítið, engu líkara en það margfaldist.
Nú fyrir stuttu tók ég mig til og prjónaði nokkur vettlingapör handa litlu fingrunum sem bæst hafa í fjölskyldur okkar Axels á undanförnum vikum. Oft tek ég minnstu hnyklana og skipti þeim í tvennt, þá nær maður að klára þá alveg.
:
Það er engin uppskrift af þessum vettlingum en ég reyni að vanda litasamsetningar. Ég hef sankað að mér góðu úrvali af satínborðum, gríp oft ef ég sé á tilboði t.d. í Föndru eða A4, oft fær maður borða utan um gjafir og svo hef ég fundið að besta verðið er sennilega hjá Söstrene Grene en þar hef ég fengið 11 metra af 7 millimetra borða á 199 krónur.
Það er líka alltaf sígilt að prjóna Barbie-föt. Ég hef fundið góða síðu með ógrynni uppskrifta http://www.stickatillbarbie.se/ Það er óhætt að segja að þarna getur hver og einn fundið eitthvað við sitt hæfi.

 ... og svo er bara að fitja upp.

miðvikudagur, 2. júlí 2014

Blessað barnalán

Það er óhætt að segja að mikil barnasprengja hafi orðið í kringum litlu fjölskylduna undanfarið og nýfæddum börnum hreinlega rignt niður í kringum okkur. Þetta á bæði við innan fjölskyldu okkar hjónanna beggja en einnig hjá vinum. Ég hef oft átt eitthvað í handraðanum til að grípa til og gefa en nú hef ég varla haft undan. Frá því í nóvember og fram til 17. júní, hafa hvorki meira né minna en níu börn fæðst í kringum okkur og auðvitað langar manni að færa hverju barni eitthvað hlýtt og notalegt heimaprjónað eða heklað. Um síðustu helgi kláraði ég litla sokkaskó handa litlu þjóðhátíðardömunni, frænkunni sem fæddist á 17. júní. Uppskriftina fann ég á gömlu ljósriti úr "Nýju kvennablaði" sem, ef ég hef kynnt mér rétt, var gefið út á árunum 1940-1964. Mér finnst algjör fjársjóður að komast í svona gamlar uppskriftir og vinna með. Sokkaskóna prjónaði ég úr Lanett-garni frá norska framleiðandanum Sandnes á prjóna nr. 2 1/2. Um leið og ég prjónaði sokkaskóna, breytti ég uppskriftinni örlítið að mínum hætt og er mjög ánægð með árangurinn. Næst er svo að prjóna annað par og skrifa þá niður breytingarnar um leið.
Hér má sjá árangurinn. Það var með ráðum gert að hafa bandið örlítið strekkt til að sokkaskórnir haldist betur á fætinum og svo er bara að sjá hvernig litla eigandanum og foreldrunum líkar.